148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með öllum þeim sem hafa talað hér á undan mér í sambandi við gíslingu mála í nefndum. Það er vægast sagt með ólíkindum að hér skuli vera ríkisstjórn og forsætisráðherra sem boðaði, fyrir tæpum átta mánuðum, að ekki mætti láta Íslendinga bíða lengur eftir réttlæti. Fátækt fólk getur ekki lengur beðið eftir réttlæti, en í nefndum bíða sanngirnismál sem er haldið þar í gíslingu af þingmönnum hæstv. forsætisráðherra. Ég segi bara: Ef þetta er eflingin, ef þetta eru bættu vinnubrögðin þá held ég að við ættum hreinlega að skammast okkar fyrir að hafa yfir höfuð trúað því. Þetta eru ósannindi, þetta er falsboðuð efling bættari og betri vinnubragða á Alþingi. Ég vildi gjarnan sjá að við gætum a.m.k. staðið hér keik uppi og komið fram með lágmarkssanngirni gangvart borgurunum sem búa við bágustu kjörin.