148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Já, minni okkar er misjafnt. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talar um að hana reki ekki minni til slíks kuls sem er nú á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í nefndum. Ég man alveg eftir árinu í fyrra þar sem kulið var nú þannig að stjórnarandstaðan fékk ekki einu sinni eina af formennsku í neinni nefnd.

Mig langar að taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er pínulítið skrýtið að við séum að ræða þetta. Við erum ekki að fara að fresta þingi fram á haust. Við erum að fresta þingi í tvær vikur og það er nægur tími til að vinna mál. Það að við setjum samasemmerki milli eflingar Alþingis og þess að hluti nefndarfólks telur að mál þurfi betri vinnu áður en þau verði tekin út er jafna sem ég get ekki komið saman í kollinum á mér. Menn geta gripið fram í og sagt „come on“, en það er engu að síður þannig að það eru fulltrúar í nefndum sem telja að sum mál þurfi betri vinnu, (Gripið fram í.) það þurfi að kalla á fleiri gesti, það þurfi að vinna betur í umsögnum. Menn geta jesúsað sig og hrópað upp, núna komnir í stjórnarandstöðu, kannski vanari því að vera hinum megin við borðið og fá ekki lengur að ráða alveg öllu heldur þurfa kannski einmitt að rétta fram sáttarhönd á móti.