148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að taka þessa umræðu. Þetta er áhugavert viðfangsefni. Umræðan um borgaralaun er auðvitað ekki bara hér á landi, heldur víðast um hinn vestræna heim. Það er alveg rétt að þær áskoranir sem blasa við okkur er lúta að fjórðu tæknibyltingunni og þeim tækniframförum og væntanlega breytingum og fækkun starfa að einhverju marki blasa við okkur öllum.

Ég hef hins vegar sjálfur kosið að líta þetta aðeins öðrum augum og ég horfi til þess sem gerst hefur áður. Tæknibyltingin er þegar upp er staðið ekkert annað en framleiðnisprenging í hagkerfinu. Það er það sem við þykjumst sjá fyrir. Við eigum auðvitað eftir að sjá hver raunin verður. Þá er kannski ágætt að hafa það í huga að það sem gjarnan hefur gerst við slíkar kringumstæður er að vinnutími hefur styst, styst verulega, og það er ágætt að hafa það í huga ef við horfum alllangt til baka. Ef við tölum um árdaga iðnbyltingarinnar voru vinnustundir í Bretlandi á ári um 3.700. Það voru nær engir frídagar og mjög langir vinnudagar. Í Bretlandi eru vinnustundir í dag um 1.850 á ári, hafa helmingast á liðlega tveimur öldum.

Í Noregi hefur orlof starfsmanna farið á einni öld úr einni viku í fimm og ef við lítum til Íslands hefur vinnutími á 40 árum styst úr rúmum 60 stundum á viku í rúmar 40 stundir. Ég sé allt eins fyrir mér að sú tæknibylting sem við horfum framan í muni einfaldlega leiða af sér mun styttri vinnutíma en við höfum átt að venjast. Tilhneigingin í framleiðniaukningu eins og hér er verið að tala um hefur verið að framleiðninni hefur verið skipt á milli hækkandi launa og styttri vinnutíma. Hér munum við væntanlega sjá aukna áherslu (Forseti hringir.) á hið síðarnefnda og horfum jafnvel á styttri vinnuviku og styttri vinnutíma innan dagsins líka.