148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Það hefur lengi verið ósiður hér í þinginu að í stað þess að þingið fái málefni úr nefndunum til atkvæðagreiðslu og lúkningar, til þess einfaldlega að fella þau eða samþykkja, þá eru þau svæfð í nefndum. Sér í lagi á það við um þingmannamál sem eru síðan endurflutt ár eftir ár. Það væri bragur á því að þingið fengi þessi mál til umræðu í þingsal og lúkningar. Það væri mun meiri bragur á því fyrir þingið en sá háttur sem hafður er. Það er eins og þessi ríkisstjórn, af því að hún er nú ekki sammála um margt, óttist hreinlega pólitíska umræðu í þingsal. Enda er hún að eigin sögn fyrst og fremst starfsstjórn um aukin ríkisútgjöld og vill helst forðast pólitíska umræðu í þingsal. En hér eru mörg mjög góð mál sem mjög vert væri að kanna vilja þingsins til, mál sem stjórnarandstaðan er af auðmýkt að kalla eftir að verði afgreidd úr nefndum.