148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:28]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég tek undir orð annarra þingmanna og tala þá sérstaklega um vonbrigði. Ég verð að viðurkenna að þegar þetta ævintýri byrjaði með þessari nýju ríkisstjórn var ég frekar vongóð, einhverra hluta vegna. Ég hugsaði með mér: Kannski verður þetta eitthvað öðruvísi núna. En þetta byrjaði í velferðarnefnd, var bara mjög gott samstarf og byrjaði allt vel. Svo fóru að renna á mig tvær grímur þegar ég áttaði mig á því, og það var talað um það opinskátt í nefndinni, að ekki ætti að hleypa neinum málum út nema fullkomin sátt væri um þau. Þetta er sagt og fólk skammast sín ekki einu sinni fyrir það, eins og þetta sé eðlilegasti hlutur í heimi. Og nú er ég farin að átta mig á því að það á að tefja þessi mál og nota þau í hrossakaupum við þinglok. Til að ríkisstjórnin fái sín mál í gegn óáreitt frá okkur í minni hlutanum. Er þetta í lagi? Er það þannig að þegar fólk er búið að vinna (Forseti hringir.) lengi á svo rotinn hátt þá þyki það í lagi og sjálfsagt mál að tala um þessa hluti eins og þetta sé eðlilegt og svona eigi þetta að virka? Breytum þessu.