148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er nýgræðingur á þessu sviði og verð að segja að vinnubrögðin koma mér dálítið á óvart. Í flestum þeim störfum sem ég hef tekið að mér hingað til, þó að menn geti verið í ágreiningi, setjast menn einfaldlega niður og leysa hann; ræða sig að niðurstöðu og klára málin. Þeir eru ekkert endilega sammála en það er hægt að ljúka málunum. Hér er alltaf farið í einhverja refskák, eitthvert leikrit, einhverjar æfingar til að drepa málum á dreif. Það er ekkert annað en það sem er á ferðinni hér. Eins og margoft hefur komið fram í máli stjórnarandstöðuþingmanna á að geyma þetta samningsatriði til síðustu daga þingsins. Það er allt of snemmt að fara að leyfa stjórnarandstöðunni að fá eitthvað núna. Það er hið hefðbundna leikrit hér í þessum sal.

Þá er talað um að skyndilega þurfi að ræða málin miklu betur; mál sem eru mörg hver búin að vera marga mánuði í nefndum. En á sama tíma er þessi sami stjórnarmeirihluti tilbúinn að renna málum stjórnarinnar á færibandi og á leifturhraða í gegn, nánast óræddum; málum sem eru enn að streyma inn til 1. umr. Þá er það ekkert vandamál að þau séu meira og minna órædd, bæði í nefndum og þingsal. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)