148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja herra forseta að því hvert hlutfallið er af þingmannamálum sem hafa verið samþykkt á þessu þingi, þegar enn þá er tæpur mánuður til þingloka, miðað við önnur þing. Hvort hann hafi upplýsingar um það. Ég held að það sé bara nokkuð hátt. Ég vil upplýsa hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um að það hafa verið stjórnarfrumvörp allan tímann í velferðarnefnd.

Svo er líka gaman að heyra marga hv. þingmenn tala um mikilvægi þess að þingið fái að ræða málin og greiða um þau atkvæði. Þeir sömu þingmenn hafa nú ekki greitt fyrir öllum þeim málum sem ég hef lagt fram á þingi og haft langar ræður um þau og séð til þess að þau fari seint og illa út úr nefndum og komist seint og illa til atkvæðagreiðslu.

Varðandi það mál sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr um er það rétt að nefndin hefur fengið alla þá gesti sem hún taldi rétt að fá (Forseti hringir.) í því máli en hún hefur aldrei rætt málið innbyrðis og gestirnir sem komu höfðu hver sinn skilning á málinu. (Forseti hringir.) Á hv. velferðarnefnd að bjóða þinginu upp á að koma hér með tillögu (Forseti hringir.) og greiða atkvæði um mál sem hver hefur sinn skilning á?