148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég saknaði þess að forseti brygðist við þeim ábendingum og spurningum sem fram komu í umræðum áðan um fundarstjórn forseta. Sérstaklega finnst mér augljóst tilefni til að forseti láti til sín taka nú þegar við höfum séð eða heyrt hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í hv. velferðarnefnd. Til dæmis og ekki hvað síst á það við varðandi tillögu um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom hér upp og lýsti því einfaldlega að hann teldi að þingið ætti ekki að fá að taka málið til afgreiðslu vegna þess að þjóðin vildi ekkert hafa með það að gera. Það er auðvitað algjörlega rangt mat eins og kannanir hafa sýnt. Fyrir vikið finnst mér eðlilegt að hæstv. forseti grípi inn í og reyni að miðla málum milli stjórnar og stjórnarandstöðu þannig að menn semji um þá sjálfsögðu niðurstöðu að nokkur brýn mál stjórnarandstöðunnar verði afgreidd úr nefnd.