148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

Við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, hefur komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þarf allmörgum ákvæðum laganna svo að framkvæmd þeirra og málsmeðferð þeirra mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Frumvarp þetta, sem er liður í framangreindu, felur í raun ekki í sér veigamiklar efnislegar breytingar á lögunum heldur er því einkum ætlað að lagfæra orðalag og tilvísanir til lagaákvæða, skýra einstök ákvæði sem hafa þótt óljós eða ófullnægjandi.

Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að fyrirvarinn um heimild formanns og varaformanns kærunefndar útlendingamála, til að úrskurða einir, verði þrengdur og eigi aðeins við þegar vafi er um efnislega niðurstöðu á umsókn um alþjóðlega vernd eða hvort taka eigi mál til efnismeðferðar. Breytingunni er ætlað að auka skilvirkni og afköst nefndarinnar.

Með hagsmuni barna að leiðarljósi er barnaverndaryfirvöldum bætt við þær stofnanir sem nú þegar hafa heimild til að miðla á milli sín viðkvæmum persónuupplýsingum en mikilvægt er að hlutaðeigandi stjórnvöldum sé kunnugt um hagi barns sem hefur óskað eftir dvalarleyfi hér á landi eða alþjóðlegri vernd. Barnaverndaryfirvöld geta búið yfir þekkingu á högum barnsins sem skipt geta sköpum við ákvörðun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi, alþjóðlega vernd eða framkvæmd flutnings úr landi.

Tekin eru af öll tvímæli um heimild fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða en núgildandi ákvæði kveður ekki á um skýra heimild fyrir útgáfu dvalarleyfis á þeim grundvelli heldur einungis að heimilt sé að líta til þessara sjónarmiða.

Boðun umsækjanda um vernd í viðtal hjá Útlendingastofnun er gerð skilvirkari en lagt er til að í upphafi verði sannanlega boðað til viðtals hjá Útlendingastofnun svo að stofnunin geti tekið ákvörðun í máli umsækjanda án frekari aðgerða mæti hann ekki. Núgildandi ákvæði gerir ráð fyrir að boða verði viðkomandi í tvígang. Áfram er gerð krafa um að umsækjanda sé gerð fullnægjandi grein fyrir afleiðingum fjarveru sinnar og að kannað sé hvort fjarvera umsækjanda kunni að hafa réttmætar ástæður.

Tímafrestir á heimild umsækjanda um dvalarleyfi til að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er í vinnslu eru skýrðir auk þess sem tiltekið er að dvalarleyfisumsóknir sem eru í vinnslu hjá Útlendingastofnun þegar umsækjanda hefur verið brottvísað, eða tilkynnt um hugsanlega brottvísun, falla úr gildi. Breytingin er gerð til samræmis við það að útgefin dvalarleyfi falla úr gildi samkvæmt núgildandi lögum um útlendinga.

Þá er bætt við kæruheimild til Landsréttar á ákvörðunum héraðsdóms og tekinn af vafi um hvaða stjórnvald fari með mál og undirbúning máls sem varðar frávísun við komur til landsins.

Að lokum eru lagfærðar tilvísanir í ákvæði laga um útlendinga í lögum um Schengen-upplýsingakerfið og tollgæsluyfirvöldum veitt heimild til að hafa beinlínutengdan aðgang að kerfinu.

Virðulegur forseti. Ég vísa að öðru leyti til athugasemda og greinargerðar með þessu frumvarpi og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.