148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Fram kemur í umræðunni að ekki er undantekning að fyrirspurnum okkar sé seint og illa svarað. Það er regla. Því verð ég að taka undir það sem aðrir hafa sagt hér á undan, og biðja forsetann að standa með þinginu, með okkur þingmönnum, standa vörð um þann rétt sem við höfum til að afla upplýsinga sem skipta almenning í landinu máli. Og gæta þess að ráðherrar komist ekki upp með að drepa málum annaðhvort á dreif eða draga svör úr hófi, eins og nú hefur verið gert.

Í öðru lagi verð ég að biðja forseta ásjár varðandi það mál sem ég lagði upp með. Það er óþolandi þegar þau svör sem berast seint og um síðir eru ekki nema toppurinn af ísjakanum, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) ekki nema hluti af því sem spurt var um. Ég verð að biðja forseta um að koma til liðs við okkur þingmenn í þessu máli og sjá til þess að ráðherrar gyrði sig í brók (Forseti hringir.) og skili svörum við fyrirspurnum innan tilsetts tíma og svari þeim fyrirspurnum sem til þeirra er beint.