148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

borgarlína.

[15:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Nú eru borgarstjórnarkosningar afstaðnar og væntanlega er auðveldara að ræða mál sem gátu e.t.v. talist á einhvern hátt viðkvæm deilumál í aðdraganda þeirra kosninga. Ég spurði fyrir nokkrum vikum um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar svokallaða borgarlínu. Þá kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að ekkert sérstakt fjármagn hefði verið sett í þá framkvæmd, enda er það svar í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nær til fimm ára. Reyndar liggur ekki heldur fyrir fjármagn í þessa framkvæmd hjá borginni sjálfri í áætlun hennar. Mér þótti því mjög undarlegt að fylgjast með því varðandi þetta mál, áform eða áhuga á lagningu svokallaðrar borgarlínu, hvað sem það nú þýðir, að reynt var að gera það að einu stærsta kosningamálinu í Reykjavík.

Nú ætti að vera óhætt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann meti það ekki sem svo að þetta sé ekki mál sem verði til lykta leitt á næstu misserum. Enda, eins og ég gat um áðan, er hvergi gert ráð fyrir þessari risaframkvæmd, ef af yrði, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eða borgarinnar. Má ekki gera ráð fyrir að þetta sé hugsanlega seinni tíma mál en ekki mál sem er aðkallandi í Reykjavík núna? Eða má gera ráð fyrir að einhverjar stórar ákvarðanir verði teknar um það í fyrirsjáanlegri framtíð?