148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

aðgerðir vegna stöðu sauðfjárbænda.

[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini hér tveimur spurningum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þær snúa annars vegar að hreinleika innflutts kjöts og hins vegar að boðuðum mótvægisaðgerðum hvað rekstrarumhverfi bænda varðar, þá sérstaklega sauðfjárbænda. Nú er búið að leyfa umtalsverðan innflutning á kjöti frá Evrópusambandsríkjunum, m.a. í tengslum við tollasamning sem hefur verið gagnrýndur verulega í umræðu undanfarið. Landbúnaðarráðherra hefur boðað mótvægisaðgerðir til að jafna aðstöðumun íslenskra bænda gagnvart erlendum framleiðendum og mér leikur hugur á að vita hverjar þessar aðgerðir eru og hvort ætlunin sé að hrinda þeim í framkvæmd nú þegar og ef ekki þá hvenær.

Útfærslan virðist í öllum meginatriðum hafa farið fram hjá þeim sem mest eiga undir í þessu máli.

Hreinleiki innlendrar matvælaframleiðslu er okkur Íslendingum gríðarlega mikilvægur. Skortur á hreinleika innflutts kjöts, m.a. með tilliti til lyfjanotkunar, vekur réttilega áhyggjur víða. Hvernig er eftirliti með hreinleika innflutts kjöts háttað? Eru breytingar á því fyrirkomulagi fyrirhugaðar og þá hvernig? Eða er eins og margir upplifa nægjanlegt að á umbúðum sé erlendur stimpill sem segi að kjötið sé í lagi og þar með höfum við Íslendingar misst alla stjórn á innflutningnum?

Þetta eru meginatriðin sem mig langaði að koma inn á í þessu samhengi. Ég hef einu sinni áður lesið úr pontu hluta landsfundarályktunar Sjálfstæðisflokksins. Þar segir, með leyfi forseta, í ályktun um landbúnaðarmál:

„Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og neytenda. Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hverjar þessar mótvægisaðgerðir séu, hvernig sú vinna standi og sömuleiðis út í hreinleika innfluttrar (Forseti hringir.) kjötvöru. Hvernig er haldið á þessum málum nú um stundir?