148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að eyða hér nokkrum orðum í fiskeldismál. Ég hef töluvert verið í samræðum um þau mál undanfarið, átti m.a. ágætisferð víða um land í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna og ræddi þessi mál víða. Ég hef orðið var við að á undanförnum mánuðum og árum hefur þessi umræða allt of mikið verið í skotgröfum. Við höfum einhvern veginn sett okkur í þær skotgrafir að þau sem halda umhverfissjónarmiðum á lofti séu á móti fiskeldi, en svo þarf alls ekki að vera.

Ég vil í þessum efnum horfa til þess sem Norðmenn hafa gert á undanförnum áratugum. Þeir eru sennilega þjóða fremstir í fiskeldismálum. Norðmenn stefna nú að fimmföldun á fiskeldisframleiðslu sinni, en öll sú framleiðsla á að fara fram undir ströngustu umhverfiskröfum. Það er nefnilega vel hægt að byggja upp fiskeldi en fylgja engu að síður eftir ýtrustu kröfum hvað varðar umhverfismál.

Þær fregnir voru líka eftirtektarverðar sem bárust frá Norðmönnum hvað varðar leyfi til fiskeldis og það auðlindagjald sem norski ríkissjóðurinn mun fá í sinn kassa. Við þurfum að horfa vel til þess hvernig þar er haldið á málum og hvort við getum tekið upp með skýrum hætti þeirra vinnubrögð. Norðmenn hafa rekið sig á horn í þessum geira síðustu áratugi og við getum lært af þeim með því að horfa til þess hvað þeir eru að gera í dag. Slík vinna gæti vel verið í sátt við geirann sjálfan. Hún er það í Noregi. Nú vill svo til að margir eigendur íslenskra fiskeldisfyrirtækja reka einnig fiskeldi í Noregi og eru þar aðilar að þeirri sátt sem ríkir um umhverfisvæna uppbyggingu. Því ættu að vera hæg heimatökin að koma á slíkri sátt hérlendis.