148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

jöfnuður og traust.

[14:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega fyrir þessa umræðu. Mér sárnar rosalega tilhugsunin um það sem ég var að uppgötva. Fyrir ekki svo löngu síðan var króna á móti krónu skerðingin 30–40 þús. kr. Króna á móti krónu skerðingin í dag er 100 þús. kr. Einstaklingur sem hæstv. fjármálaráðherra hældi sér af að væri kominn í 300 þús. kr., býr einn, er veikur, öryrki, fær jú 300 þús. kr. en eftir skatta og skerðingar er hann kominn niður í 250 þús. kr. Ef þessi einstaklingur fær 100 þús. kr. frá lífeyrissjóðnum fær hann 0. Það er þurrkað út. Ef hann fær ekkert frá lífeyrissjóði og á ekki rétt þar og ætlar að fara að vinna, vinnur sér inn 100 þús. kall fær hann 0. Hvers lags ofbeldi er þetta? Hvernig í ósköpunum látum við þetta viðgangast?

Síðan kórónum við ofbeldið þegar einstaklingar fá núna skerðingar frá Tryggingastofnun ríkisins eftir skerðingardaginn mikla, 88% af útborgunum frá Tryggingastofnun eru rangar, 12% eru réttar. Svo senda þeir út á fólk bréf um að það eigi að endurgreiða 48 þús. kr. en það fær frá Tryggingastofnun ríkisins 33 þús. kr. vegna þess að það er búið að endurmeta það. Viðkomandi fær ekki lengur endurhæfingarstyrk, hann fær 50% styrk og á að lifa af 33 þús. kr. Treystið þið ykkur hér inni til að lifa af 33 þús. kr. á mánuði? Ég geri það ekki. Það er vonlaust.

Tölum um Gini-stuðulinn. 750 þús. kr. eru meðallaun í landinu í dag. Helmingur af því ætti að vera í fátækt en það eru 30%, 250 þús. kall sem er verið að borga út. (Forseti hringir.) Sárafátækt. Eigum við að vera stolt af því? Nei.