148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það kom ágætlega fram í máli hv. þm. Loga Einarssonar að um mikið er að tala. Það kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra að ESB væri að gera okkur einhvern grikk með því að senda okkur þetta. Þetta varðar náttúrlega framkvæmd samnings sem oft er kallaður EES-samningurinn og einsleitni í þeim samningi. Sá samningur hefur verið í gildi í 24 ár ef ég kann stærðfræðina mína rétt þannig að mér finnst orðfæri ráðherrans ekki honum sæmandi.

Þetta er eingöngu mál sem þarf að fara í gegnum þingið vegna þess að við erum aðilar að EES-samningnum. Ekki er verið að hlaupa eftir einhverjum dyntum Evrópusambandsins í þessu máli eins og mér finnst hæstv. ráðherra vera að gefa til kynna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Að lokum ætla ég að taka það fram að ég mun styðja (Forseti hringir.) það að veita afbrigði vegna þess að það verður að taka á þessu máli með einhverjum hætti.