148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ýmislegt jákvætt er í þessu frumvarpi, það sem ég hef náð að kynna mér á þeim afar skamma tíma sem við höfum haft til þess, eins og komið hefur fram hér í dag. Frumvarpið er hins vegar mjög viðamikið og íþyngjandi.

Meginmarkmið þess er að tryggja einstaklingum aukna vernd og aukin réttindi við meðferð persónuupplýsinga. Rætt er um hugarfarsbreytingu hvað varðar meðferð persónuupplýsinga, umgengni um slíkar upplýsingar og þýðingu þeirra. Allt hljómar þetta vel og eru í sjálfu sér göfug markmið en áhrif frumvarpsins verða víðtæk og snerta nær öll svið samfélagsins eins og komið hefur fram. Einmitt þess vegna kallar þetta frumvarp á vandaða umræðu í þingsal. Þau vinnubrögð sem við höfum horft hér upp á og flestallir þingmenn hafa komið inn á, hvernig þetta hefur komið inn í þingið með afar skömmum fyrirvara, eru ekki boðleg, sérstaklega í ljósi þess hversu umfangsmikið og íþyngjandi frumvarpið er.

Þá komum við enn að því sem hefur verið nefnt hér og ég nefndi í ræðu í morgun, eflingu Alþingis. Enn og aftur sannast að það eru sannkölluð öfugmæli hjá ríkisstjórninni að segjast vilja efla Alþingi.

Ég vil víkja aðeins að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið. Það hefur gert að umtalsefni kostnað sveitarfélaganna af nýjum lögum um persónuvernd. Þar kemur fram að fyrirhuguð lagasetning kalli á nýtt og bætt verklag um persónuvernd og muni hafa veruleg áhrif á alla stjórnsýslu sveitarfélaga og leiða til umtalsverðs kostnaðarauka. Fram koma áhyggjur af sektarheimildum frumvarpsins og að beiting þeirra gæti haft íþyngjandi áhrif á reksturinn sem mæta þyrfti með samdrætti í þjónustu og eftir atvikum bitna á skattborgurunum.

Þá segir Samband íslenskra sveitarfélaga að fjölmörg atriði í frumvarpsdrögunum séu mjög óljós og að skýrleika vanti um þau fyrirmæli sem sveitarfélög hafa um hvernig standa beri að málum. Þetta er grundvallaratriði. Mat á kostnaði sveitarfélaga væri þannig háð mikilli óvissu og vikmörk lékju á hundruðum milljónum króna. Við gerð kostnaðarmatsins leitaði sambandið m.a. í smiðju einstakra sveitarfélaga sem lengst voru komin í undirbúningnum sem og systurstofnana annars staðar á Norðurlöndunum. Fram kom hjá þeim öllum að afar erfitt væri að leggja mat á kostnaðinn og að í reynd væri vart hægt að áætla hann nema í ljósi reynslunnar að nokkrum tíma liðnum.

Finnska sveitarfélagasambandið hafði hvað gleggsta mynd af áætluðum undirbúnings- og árlegum rekstrarkostnaði finnskra sveitarfélaga. Finnarnir gerðu ráð fyrir að undirbúningskostnaður við að mæta kröfum reglugerðarinnar samsvaraði tæpum 2.300 kr. á hvern íbúa. Yfirfært á íslensk sveitarfélög væri áætlaður kostnaður því rétt tæpar 770 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður væri áætlaður um helmingur undirbúningskostnaðar sem svarar til tæplega 390 millj. kr. Hluti kostnaðar vegna frumvarpsins væri fastur sem sveitarfélög þyrftu að taka á sig óháð stærð. Af þeim sökum ætti kostnaður á hvern Íslending að vera hærri en finnsku tölurnar segja til um.

Sambandið lagði sjálfstætt mat á annars vegar hugsanlegan kostnað sveitarfélaganna við undirbúning að nýju fyrirkomulagi persónuverndar og hins vegar árlegan rekstrarkostnað til frambúðar. Niðurstöður matsins eru athyglisverðar og þær voru nokkru hærri en finnska matið gaf til kynna. Þar var undirbúningskostnaður áætlaður um 815 millj. kr. og varanlegur kostnaður um 390 millj. kr. Stærstu liðir undirbúningskostnaðarins snúa annars vegar að verkefnisstjórn og hins vegar að kortlagningu vinnslu sveitarfélaga og gerð vinnsluskráa. Kostnaður við þessa liði er áætlaður um 600 millj. kr., tæplega 74% af heildarkostnaðinum. Til að mæta fyrrnefndum liðum er gert ráð fyrir 370 millj. kr. kostnaði til að standa undir 30 ársverkum verkefnisstjóra sem stjórni undirbúningi sveitarfélaganna að nýjum lögum. Til hins síðarnefnda er gert ráð fyrir að verja þurfi um 230 millj. kr.

Við matið er gengið út frá tölum meðalstórs sveitarfélags og gefnar forsendur um fjölda tíma sem minni og stærri sveitarfélög gætu þurft að kaupa. Matið er frá 50 klukkustundum hjá minnstu sveitarfélögunum upp í 300–500 klukkustundir hjá þeim stærstu. Að auki er reiknað með vinnslu fastra starfsmanna og gert ráð fyrir að fyrir hverja klukkustund sérfræðings inni fastir starfsmenn af hendi tvær. Aðrir þættir málsins snúa að fræðslu og þjálfun, endurskoðun ferla og gerð skjala, innleiðingu öryggiskerfa persónuverndar, gerð nýrra samninga við vinnsluaðila, úttektum til að sannreyna nýtingu á áætluðum gjöldum til Persónuverndar. Til þessara mála er gert ráð fyrir að verja 215 millj. kr.

Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að varanlegur árlegur rekstrarkostnaður verði um 390 millj. kr. og liggi á bilinu 330–470 millj. kr.

Allt er þetta mjög athyglisvert og vert að fara aðeins nánar yfir þær kostnaðartölur sem stefnt er að að leggja á sveitarfélögin án þess að nokkurt mótframlag komi eða breyting á tekjustofnum þeirra. Fyrstu eitt til tvö árin er viðbúið að kostnaðurinn verði enn meiri, allt að 480 millj. kr. Það felst m.a. í því að gert er ráð fyrir að bæta þurfi við allt að hálfu stöðugildi fyrir hvert embætti persónuverndarfulltrúa fyrstu eitt til tvö árin. Gert er ráð fyrir því að persónuverndarfulltrúar sveitarfélaganna verði 14 talsins, fjórir í Reykjavík, einn í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ og síðan einn í hverjum hinna sjö landshlutanna og að áætlaður kostnaður við þá verði um 230 millj. kr., tæplega 59% af heildarkostnaðinum. Þá er gert ráð fyrir að 100 millj. kr. sé varið í árgjöld vegna samninga um hugbúnað og 50 millj. kr. í árlegar öryggisprófanir og eftirlitsgjöld til Persónuverndar.

Hæstv. ráðherra talaði í ræðu sinni um víðtækt samráðsferli. Ég sé hvergi að þetta ferli hafi átt sér stað gagnvart sveitarfélögunum og hvernig þau eiga að mæta þessum aukna kostnaði. Mörg þeirra hafa ekkert svigrúm til að mæta honum og standa undir framkvæmd laganna og öllum þeim undirbúningi sem þörf er á.

Í dag geta sum sveitarfélög ekki einu sinni haldið uppi eðlilegu skólastarfi vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu. Það þarf að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga með það í huga að hægt sé að halda uppi öflugu skólastarfi en auk þess verður að svara því hér og nú hvernig sveitarfélögin eiga að standa straum af þeim aukna kostnaði sem leggst á þau með þessu frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur skellt hingað inn með engum fyrirvara án þess að hér fari fram vönduð umræða.

Sá sem hér stendur situr í fjárlaganefnd. Við höfum verið að ræða fjármálaáætlun. Ég hef ekki orðið var við að þetta hafi komið inn á borð fjárlaganefndar og ég minnist þess ekki að rætt hafi verið um að það þurfi að huga að fjárveitingum til að standa straum af þeim mikla kostnaði sem þessu fylgir. Það er rætt um að fjölga þurfi starfsmönnum hjá Persónuvernd en hvergi rætt um sveitarfélögin og ég minnist þess ekki að þau hafi fengið nokkurt tækifæri til að koma fyrir nefndina og lýsa áhyggjum sínum þar yfir þessu.

Herra forseti. Mig langar aðeins í lokin að víkja að fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð. Í greinargerðinni kemur fram að það þurfi að ráða a.m.k. 22 persónuverndarfulltrúa í fullt starf. Kostnaður við það gæti numið allt að 250 millj. kr. árlega. Auk þess má gera ráð fyrir öðrum tilfallandi kostnaði eins og utanaðkomandi úttektum á árlegum öryggisprófunum. Það gæti numið allt að 80 millj. kr. þannig að við erum að tala um rúmlega 300 millj. kr. árlega.

Hér er náttúrlega á ferðinni hið mikla áhugasvið Evrópusambandsins á embættismönnum og að hafa þá sem flesta. Evrópusinnar á Íslandi hljóta að fagna því og þá væntanlega þeim auknu útgjöldum sem þetta hefur í för með sér fyrir ríkissjóð.

Varðandi stjórnvaldssektir sagði hæstv. ráðherra að það þyrfti að sjá hvernig þær kæmu til með að þróast. Það er ekkert svar, og sýnir að undirbúningi málsins er ábótavant af hálfu ríkisstjórnarinnar, að svara því með að segjast þurfa að sjá hvernig það kemur út að stjórnvaldssektir geti verið lagðar sem nemur allt að 2,5 milljörðum kr. Þetta segir allt sem segja þarf um það með hvaða hætti þetta mál kemur hingað inn og hvernig undirbúningi hefur verið háttað.

Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að leggja sektir á einstaklinga, lögaðila, þar á meðal stjórnvöld og stofnanir sem falla undir gildissvið stjórnsýslulaga. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir verða teknar af stjórn Persónuverndar en sektirnar renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Áður en til beitingar stjórnvaldssektar kæmi hefur Persónuvernd þann möguleika samkvæmt 45. gr. frumvarpsins að leggja dagsektir á þann aðila sem fyrirmæli um ráðstafanir til úrbóta beinast að. Sektir geta numið allt að 200.000 kr. fyrir hvern dag sem líður eða byrjar að líða án þess að fyrirmælum sé fylgt.

Ég hef rakið þann mikla kostnað sem sveitarfélögin standa frammi fyrir með innleiðingu þessa frumvarps. Samkvæmt þessu gætu sveitarfélögin einnig staðið frammi fyrir háum sektargreiðslum og auk þess fyrirtæki og einstaklingar, við megum ekki gleyma þeim í þessari umræðu. Það er alveg ljóst að þetta mál þarfnast mun betri og vandaðri umræðu. Hér eru veigamikil atriði, ekki síst er lúta að kostnaði við innleiðingu og framkvæmd laganna, ákvæðum um sektargreiðslur, skýrleika laganna, fræðslu o.s.frv., sem þarfnast mun meira samráðs við hagsmunaaðila.