148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að höggva svolítið í sama knérunn og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Ég átti ekki von á að við værum að fara að tala um það sama en ég hefði svo sem átt að geta gefið mér það. Vissulega er ég sammála hv. þingmanni að kostnaðurinn sé mjög mikill í kringum þetta og lendir á mjög mörgum. Auðvitað hefðu átt að koma mjög góðar skýringar með um hvernig þetta yrði fjármagnað. Reyndar minnir mig að það hafi verið gert ráð fyrir lítilli aukningu í fjármagni til Persónuverndar í fjárlögum þessa árs. En einhverjir myndu segja að stofnanir eins og Persónuvernd, sem hafa lengi verið vanfjármagnaðar og undirmannaðar í ljósi síaukins verkefnafjölda sem þær þurfa að fást við og þess að málaflokkurinn verður æ flóknari, þyrftu að vera vel fjármagnaðar. Þætti hv. þingmanni ekki almennt eðlilegt að við sem samfélag eyddum auknum peningum í að verja einmitt þessa hagsmuni einstaklinga í því flókna umhverfi sem við búum við, hvort sem það er hjá Persónuvernd eða öðrum stofnunum ríkisins eða sveitarfélögum eða þar fram eftir götunum?

Nú eru mörg fyrirtæki úti í heimi sem byggja afkomu sína á því að njósna hreinlega um almenning og selja ýmist hrágögn eða unnin gögn eða þjónustu sem byggir á þeim gögnum á borð við miðlaðar auglýsingar. Sumt af þessu er sárameinlaust en margt annað alls ekki. Í öllu falli ætti helst að vera á valdi hvers einstaklings að ráða því hvort fylgst sé með honum og með hvaða hætti það er gert. Persónuvernd er sú stofnun sem á að verja þessa hagsmuni borgaranna hér á landi en síðan hafa önnur stjórnvöld ákveðnu hlutverki þar að gegna líka. Mér þætti eðlilegt að þessar stofnanir væru fjármagnaðar til þess að geta sinnt þessu hlutverki. Er hv. þingmaður sammála mér um það?