148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[18:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og upptalninguna áðan og dæmið sem nefnt var um það þegar hjón eru að skilja og geta orðið fyrir skerðingu. Það er mjög merkilegt að fyrirkomulagið sé þannig að þegar fólk er skráð á sama lögheimili í ákveðinn tíma sé það allt í einu skráð í sambúð, eins og nefnt var hér áðan. Mér þætti gaman að vita hvort hv. þingmaður veit hvort það á bara við um fólk af gagnstæðu kyni eða hvernig það er.

Mig langaði að vekja athygli á tveimur liðum 9. gr. þar sem eru almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga. Þar stendur í 3. lið, að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvíli á ábyrgðaraðila. Í 5. lið segir að vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið sé í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með.

Það hljómar eins og þetta sé mjög víðtæk undanþága til þess að vinna með persónuupplýsingar ef lög eru samþykkt eins og til dæmis almannatryggingalögin sem hv. þingmaður vísaði í. Ég sé ekki, í þeim 42 lagabreytingum sem fylgja frumvarpinu, að einhverju sé í raun breytt í almannatryggingalögum hvað þetta varðar nema að orðið „vinnsla“ er notað í staðinn fyrir „meðferð“, það er mjög algeng breyting í þessu. Þá lítur út fyrir að það sé í raun engin breyting á þeirri framkvæmd sem hv. þingmaður fór hér yfir og ég tel vera mjög þarft innlegg í umræðu um þessi lög.