148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt um orðin um einfaldleika málsins sem ég vildi veita hv. þingmanni andsvar. Eins og hv. þingmaður benti á eru þetta risastór mál. Þó að ég sé mjög æfður í að greina kerfi úr tölvunarfræðinni — ég er ekki stærðfræðingur — tekur einfaldlega tíma að rekja sig í gegnum alla þræði kerfisins og hvernig þeir spila saman, hvað þá önnur sérlög sem eru þegar í gildi og eru í persónuverndarnotkun. Þegar þingið tekur inn þingmál förum við í gegnum umræðuna, fáum álit sérfræðinga í nefndinni, reynum að skilja málið og komum að lokum í 2. umr. og reynum að útskýra málið fyrir fólki á mannamáli með okkar samvisku að leiðarljósi í því. Við sjáum einfaldlega fram á það núna í 1. umr. að reyna að klóra okkur í gegnum þetta og nota þann stutta tíma sem er eftir af þinginu til að púsla saman málinu til að geta útskýrt fyrir alþjóð hvernig þetta á að virka. Það er rosalega stórt verkefni. Þetta er miklu flóknara en fjármálaáætlun, hún er einföld í samanburðinum.