148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að full ástæða er til að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á einkafyrirtæki og félagasamtök og allt það. Það er auðvitað sjálfstætt vandamál. Ástæðan samt fyrir því að ég tek upp það sem varðar opinbera aðila eins og sveitarstjórnir er að það eru aðilar sem hafa jafnvel lögbundnar skyldur til að safna upplýsingum, sem öll fyrirtæki hafa ekki endilega. Og vegna samspils ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að rekstri. Ég er með öðrum orðum að nota þennan ræðutíma til að gagnrýna það að við getum tekið risastórar ákvarðanir sem varða annað stjórnsýslustig sem eru mjög íþyngjandi og kostnaðarsamar, stjórnsýslustig sem hefur enga möguleika á sama hátt og við til að grípa til aukinna tekjuauka án þess að eyða á það orði.

Ég hef hins vegar alveg samúð með því sjónarmiði sem kemur fram í greinargerðinni, að það sé ákveðin sanngirni í því að gæta jafnræðis á milli opinberra aðila og einkaaðila. Ég er alveg sammála því. En fyrst og fremst er það þessi plagsiður okkar, eins og þegar við slógum öll saman höndum þegar við vorum búin að lögfesta NPA. Það var frábært mál og mjög stór stund hér inni en við gleymdum hins vegar að leysa minni háttar mál eins og hvernig ætti að fjármagna það. Þetta mál er kannski af sama meiði.