148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Öllum má ljóst vera að þessi vinnubrögð eru óboðleg og ekki sæmandi. Mál sem samið hafði verið um sitja föst í nefndum og nú á að setja fram fyrir þau þessa sprengju, sem hér hefur verið kölluð svo, þar sem rétta á tilteknum aðilum upp undir 3 milljarða kr.

Málin sem sitja föst, svo að ég geri nú grein fyrir því sem við höfum borið fram í Flokki fólksins, eru afnám frítekjumarks sem er um það að fólk geti eflt sinn hag með því að vinna og þurfi ekki að þola einhverjar skerðingar fyrir vikið. Og við erum með mál um það að útlagður kostnaður vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja, sem fólk þarfnast vegna örorku eða elli, sé ekki reiknaður sem tekjur og að fólk þurfi að þola skerðingar ofan í kaupin. Ég nefni sömuleiðis að Miðflokkurinn er með góð mál og fleiri stjórnarandstöðuflokkar.

Hv. þingmenn Vinstri grænna, sem eru að beita sér með þessum hætti, ganga fremstir í því (Forseti hringir.) í velferðarnefnd að koma í veg fyrir að málið um frítekjumarkið (Forseti hringir.) fáist afgreitt af nefndinni.

Herra forseti. Þetta er algjörlega óboðlegt.