148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega athyglinnar virði að verða vitni að í fyrsta skipti síðan ég gerðist alþingismaður þessum ótrúlega fíflagangi nákvæmlega núna. Ég er gjörsamlega orðlaus. Ég átta mig ekki á t.d. rökunum fyrir því að reyna að keyra þetta frumvarp í gegn algjörlega á ljóshraða án þess að nokkur hafi getað rönd við reist. Ég segi nú eins og minn þingflokksmaður gerir gjarnan, ég kalla þetta hreint og klárt ofbeldi.

Rökin eru að lögin renni út 31. desember þannig að þá myndum við bara sitja eftir í tómarúmi fjóra mánuði með ekkert veiðigjald á útgerðina. Hvers lags bull er þetta? Við setjum bara einfalda breytingartillögu inn í þessi lög. Ég veit ekki betur en að hver einasti lagabálkur hér séu venjulega margar blaðsíður af breytingartillögum og það er ekkert vandamál. Þá getum við unnið þetta almennilega og gert það sem markmiðið er, að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga í einhverjum rekstrarvanda. Það á svo sannarlega ekki við um þá stóru sem við þekkjum mætavel.