148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að skilaboð meiri hluta þingsins til okkar í minni hlutanum séu einfaldlega: Ég á þetta, ég má þetta. Ég geri það sem mér sýnist, mér er alveg sama hvað ykkur finnst um það.

Spurningin er hins vegar: Hvar er faglegur metnaður meiri hlutans fyrir vönduðum vinnubrögðum? Við erum að tala um að fara að skera upp veiðigjaldakerfi í sjávarútvegi á örfáum dögum. Það er búið að rífast um þetta mál í vel á annan áratug. Ríkisstjórnin sjálf ætlaði að setja það á dagskrá og í vinnslu og ferli en, nei, hér á út af einhverju neyðarástandi, að sagt er, í greininni að afgreiða það í gegnum þingið á nokkrum dögum, augljóslega í bullandi ágreiningi. Þegar horft er á þetta neyðarástand sem vísað er til er ágætt að hafa í huga að eigið fé sjávarútvegs hefur aukist úr 0% í 42% á átta árum. Ég held að greininni hafi bara vegnað alveg ágætlega. Ég er mjög ánægður með hversu vel greininni hefur vegnað. Það er mikið fagnaðarefni fyrir þjóðina hversu vel hefur árað í sjávarútvegi, það er ekkert neyðarástand í þessari grein. Verðmæti útfluttra sjávarafurða á fyrstu (Forseti hringir.) fjórum mánuðum þessa árs jókst um þriðjung. Það er neyðarástandið í þessari grein. Við þurfum greinilega að víkja öllu öðru til hliðar og ræða sérstaklega um það hvernig eigi að bregðast við því neyðarástandi.

Ég vildi óska þess að þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn horfðu jafn alvarlega á stöðu annarra atvinnugreina í landinu og hún horfir á stöðu sjávarútvegs eða landbúnaðar.