148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp í fundarstjórn forseta til þess að láta það í ljós að ég er búinn að vera hérna nokkrum sinnum við þinglok, bæði vor og áramót, og þegar ég áttaði mig á því að það færu fram einhvers konar viðskipti, einhverjir dílar um það hvernig málum yrði lokið, þá hugsaði ég: Er ekki hægt að taka þetta bara eftir númeraröð, svo framarlega sem mál eru tæk til þingsins? En gott og vel, það var ekki gert og ekki heldur núna eftir að ný ríkisstjórn tók við þó að hún talaði um breytt vinnubrögð.

Það var gert samkomulag fyrir þinghléið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Ég árétta það sem hefur komið hérna fram áður um það samkomulag sem var gert við forseta og meiri hlutann um þau mál minni hlutans sem eru föst inni í nefndum, hvort eigi ekki að standa við það loforð. (Forseti hringir.) Þá nefni ég krónu á móti krónu málið og t.d. staðarvalsgreiningu um þjóðarsjúkrahús og annað slíkt. Á ekki að standa við þessi loforð? (Forseti hringir.) Er það ekki partur af dílnum?