148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn og virðulegum forseta er auðvitað vorkunn að þurfa að vinna úr þeirri stöðu sem er innbyrðis á milli ríkisstjórnarflokkanna. Það ástand sem er uppi núna og ástæða þess að við stöndum hér og ræðum fundarstjórn forseta er sú að ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega Vinstri grænir annars vegar og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hins vegar, eru gjörsamlega ósammála um þetta mál. Það er ástæðan fyrir því að frumvarpið kemur inn með þessum hætti, jafn léleg og þau vinnubrögð eru, því sjálfur hefði ég gjarnan viljað fá að fara í gegnum ígrundaða umræðu um þá galla sem eru á veiðigjaldakerfinu og með hvaða hætti við getum fært það til betri vegar. Mér vitandi er enginn í útgerð í dag sem talar á móti því að veiðigjöld séu viðhöfð, en það er framkvæmdin, útreikningurinn, sem við ættum að fá rúman tíma til að ræða og til (Forseti hringir.) lagfæringar, því þarna er margt og mikið sem þarf að bæta.