148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:47]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Lækkun veiðigjalda nokkrum dögum fyrir þingfrestun — ég er sár fyrir hönd þingsins og ég er sár fyrir hönd þjóðarinnar. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga töluðu menn sig hása um bætt siðferði, bætt vinnubrögð, bætt samráð og samvinnu við minni hlutann innan þings. Töluðu sig hása við fólkið sem það sótti umboð sitt og sækir umboð sitt til. Núna, nokkrum dögum fyrir þingfrestun, kemur þetta mál fram, að lækka veiðigjöld, undir þeim formerkjum að það sé brýnt þjóðhagsmál að ljúka því. Það kaupir þetta enginn. Það er enginn hér inni svo vitlaus að kaupa þetta bull. Ég leyfi mér meira að segja að efast um að stjórnarliðar trúi því sjálfir að staðan hjá útgerðinni sé svo slæm að þetta (Forseti hringir.) sé brýnasta málið fyrir land og þjóð. Það fær mig til að hugsa til ríkisstjórnarinnar. Hvar er hún? Ef hún er sannfærð um að þetta sé brýnasta (Forseti hringir.) málið sem taka þurfi á dagskrá nú rétt fyrir þingfrestun, af hverju hefur hún ekki manndóm í að standa fyrir orðum sínum?