148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það er fullt af fólki þarna úti, öryrkjar, sem er skelfingu lostið vegna þess að það hefur sætt skerðingum. Á sama tíma og við erum að tala um að koma í gegn frumvarpi fyrir kvótakónga, að mér skilst upp á 3 milljarða, bið ég þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að skýra það út fyrir mér hvernig í ósköpunum einstaklingur á að fara að því að borga til baka meira en hann fær. Hann á að fá 33 þús. kr. útborgaðar á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins en borga til baka 48 þús. kr. Ef einhver vill skýra það fyrir mér hvernig þessi einstaklingur á að fara að þessu þá þætti mér mjög vænt um að heyra þá skýringu. Þetta er gjörsamlega ómögulegt. Á sama tíma erum við að tala um að troða hér í gegn frumvarpi fyrir kvótakónga, fólk sem er forríkt. Ég bara spyr: (Forseti hringir.) Er þá ekki hægt að troða hér í gegn einhverju fyrir þá sem verst eru staddir og þurfa virkilega á því að halda og geta ekki borgað? Enginn getur borgað 48 þús. kr. af 33 þús. kr.