148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef maður skoðar það þá er kannski ekkert skrýtið að þetta komi fram núna. Það vissu allir hvernig staðan hefur verið. Réttlætingin sem er lögð fram núna er grundvölluð á því sem allir vissu. Réttlætingin finnst okkur náttúrlega ekki vera rétt en hún var til staðar. Hvers vegna kemur þetta fram rétt eftir sveitarstjórnarkosningar? Vegna þess að þetta er mjög óvinsælt. Það var meira að segja kallað eftir málþófi, talað um að sækja umboð til þjóðarinnar til að vísa málinu til forseta þegar ríkisstjórnin 2013 gerði það að sínu fyrsta verki að lækka veiðigjöldin. Þetta er mikið mál, skiptir miklu máli, þetta eru gríðarlega miklir peningar og er gríðarlega óvinsælt hjá miklum meiri hluta landsmanna. Það er ekkert skrýtið að þetta komi rétt eftir sveitarstjórnarkosningar. Það sem aftur á móti er áhugavert er að sjávarútvegsráðherra leggur þetta ekki fram, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, er látin leggja þetta fram með meiri hlutanum þar og þarf að tala þessu máli, jafnvel þó að mögulegir hagsmunaárekstrar séu á ferð samkvæmt lögum um þingsköp, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Þingmenn skulu í störfum sínum forðast árekstra á milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna þeirra eða annarra hagsmuna sem eru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra, hvort sem þeir eru raunverulegir eða hugsanlegir.“

Takist þingmanni ekki að leysa úr þessu, koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi, skal hann upplýsa um þá.

Nú, þetta er staðan. Nú eftir kosningarnar er verið að láta Lilju Rafneyju Magnúsdóttur bera þetta óvinsæla mál á borð. Sú er staðan.