148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég nefndi það áðan og ég segi það enn og aftur að ég sé enga ástæðu til þess að mál um brottnám líffæra, um svokallað ætlað samþykki, fái forgang og lengja þurfi þingfund fram á kvöld til að svo megi vera. Ef auka á líffæragjöf látinna einstaklinga og leysa það vandamál sem felst í of litlu framboði lífsnauðsynlegra líffæra er þörf á meiri umræðu hér á landi um málaflokk líffæragjafa hjá stjórnvöldum, hinu fræðilega samfélagi og ekki síst hjá almenningi. Það eru mörg álitamál sem varða þetta mál. Þetta er stórt mál rétt eins og veiðigjöldin. Ekkert hefur verið fjallað um hugsanlegan kostnað framkvæmdarinnar, hvorki aukið vinnuálag heilbrigðisstarfsfólks né aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Málið hefur hvergi borið á góma í tengslum við vinnu fjárlaganefndar um fjármálaáætlun. Hvergi. Þetta eru ófagleg vinnubrögð sem ekki eiga að sjást í svo mikilvægu máli (Forseti hringir.) og sem ekki eiga að sjást hér á Alþingi.