148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir að hv. þingmenn tali oft um hið háa Alþingi er það að mörgu leyti ótrúlega skringilegur vinnustaður. Ég spái því nefnilega að hið óvænta gerist, að þeir sem greiða atkvæði með því að vinna í nótt verði ekki hérna, en þeir sem greiða atkvæði gegn því að vinna í nótt verði hérna.

Hæstv. forseti tekur ekki til sín ásakanir um svik. Hér hefur enginn beinlínis talað um svik. En hæstv. forseti hefur að minnsta kosti ekki talað nógu skýrt vegna þess að allir sem hér hafa tjáð sig í dag hafa skilið orð hans öðruvísi en hann sjálfur. Ég get ekki sætt mig við það að við greiðum fyrir þessu dekurmáli ríkisstjórnarinnar þar sem á að færa tæplega 3 milljarða af höndum þeirra sem hafa fulla vasa fjár, sumir þeirra að minnsta kosti.