148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég geri miklar athugasemdir við fundarstjórn forseta í dag. Það er með ólíkindum að forseti skuli hafa látið þetta leikrit ganga í allan dag þegar hann veit hver niðurstaðan verður. Það er ekki vel farið með tímann í þinginu þegar þannig er haldið á málum. Það er ekki einungis farið illa með tímann, það er líka óþarfi að æsa hér upp geðslagið í annars mjög geðprúðum þingmönnum með svona stjórnvisku, ef ég má orða það þannig.

Nú eru þingstörfin öll í uppnámi, reyndar ekki í fyrsta sinn. Þau verða það væntanlega það sem eftir lifir af þessu þingi því að við höfum ekki enn þá fengið botn í það hvort forseti telji að samningar skuli standa. Nei, það er þjösnast áfram af einhverri þvermóðsku sem er nánast óskiljanleg. En ég vona — maður lifir nú alltaf í voninni — að eitthvað muni breytast eftir þennan undarlega dag, sem er nú kannski reyndar rétt að byrja ef forseti ætlar að vera hér fram undir morgun í fundarstjórn.