148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37. Þessi viðauki fjallar um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið og bókun 37 inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr. Þetta er sem sagt viðauki og bókun við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og þetta er ákvörðun um að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB sem kallast í daglegu tali almenna persónuverndarreglugerðin og ég mun vísa til þessarar reglugerðar sem slíkrar.

Í almennu persónuverndarreglugerðinni er mælt fyrir um reglur um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um reglur er varða frjálsa miðlun upplýsinga. Reglugerðin varðar grundvallarréttindi og frelsi einstaklinga, einkum rétt þeirra til verndar persónuupplýsingum.

Á þingfundi 29. maí sl. mælti ég fyrir frumvarpi til nýrra laga um persónuvernd en með þeim lögum væri verið að innleiða í íslenskan rétt hina almennu persónuverndarreglugerð. Þingmenn sem tóku til máls um það mál höfðu margir á orði að málið væri seint lagt fram. Í ljósi starfsáætlunar þingsins mótmæli ég því ekki og það sama mætti segja um mál það sem ég mæli nú fyrir sem starfandi utanríkisráðherra. Hins vegar nefndi ég í umræðum um persónuverndarfrumvarpið að í ljósi langrar framkvæmdar í EES-innleiðingarmálum væri það mál í raun of snemma fram komið. Það er nefnilega grundvallarforsenda fyrir nýjum persónuverndarlögum, eins og það tiltekna frumvarp er útbúið, að hin almenna persónuverndarreglugerð ESB hafi verið tekin upp í EES-samninginn. Í því sambandi vil ég benda á 102. gr. EES-samningsins en þar er kveðið á um einsleitni á EES-svæðinu með því að EES-nefndin eigi að taka ákvörðun um breytingu á viðauka við EES-samninginn eins fljótt og unnt er eftir að ESB hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf ESB.

Þingsályktunartillaga sú sem ég mæli núna fyrir er þannig forsenda þess að Ísland innleiði nýja löggjöf um þetta efni. Þingsályktunartillaga þessi er þannig náskyld máli nr. 622, sem ég vísaði til fyrr og ég mælti fyrir 29. maí sl., þ.e. fyrirliggjandi lagafrumvarpi um persónuvernd. Að mínu mati hefði trúlega verið skilmerkilegra að ræða þessi tvö mál saman eins og forseti lagði til við þingheim í upphafi þingfundar 29. maí en fékkst ekki samþykkt. Þannig hefðu þingmenn mögulega fengið skýrari sýn á form þessara mála, en umræður um framsögu mína í máli 622 lutu að miklu leyti einmitt að forminu en minna að efninu. Þá verð ég að segja að mér þótti mikið leitt að uppgötva eftir nokkurra klukkutíma ágætar umræður um persónuverndarfrumvarpið, sem hefðu auðveldlega getað verið upplýsandi og gagnlegar til framtíðar, ekki síst þeim sem þurfa að vinna samkvæmt nýrri löggjöf, að umræðurnar breyttust í hefðbundið málþóf í þeim tilgangi einum, að því er virtist, að koma í veg fyrir að mælt yrði fyrir þingsályktunartillögu þessari sama dag eins og kveðið var á um í dagskrá þingsins 29. maí sl. Að mínu mati var þarna um tilhæfulausan tafaleik sem var til þess fallinn að skapa ótta í atvinnulífinu vegna réttaróvissu hér á landi í persónuverndarmálum. Það er þess vegna ánægjulegt að fá að mæla fyrir máli þessu í dag.

Í umræðum um mál 622 og í umræðum um atkvæðagreiðslu um dagskrárafbrigði þar að lútandi mátti greina að sumir þingmenn töldu að mál þessi hefðu getað verið komin fyrir þingið miklu fyrr. Það er misskilningur en rétt er af því tilefni að rekja í stuttu máli forsögu hinnar almennu persónuverndarreglugerðar. Reglugerðin var samþykkt, eins og ég nefndi áðan, í ESB 27. apríl 2016 en kom ekki til framkvæmda fyrr en 25. í maí sl. Strax í apríl árið 2016 hófu íslensk stjórnvöld undirbúning að upptöku og innleiðingu reglugerðarinnar. Reglugerðin lá fyrir í íslenskri þýðingu um einu ári síðar. Í fyrstu þurftu EFTA-ríkin að meta hvert fyrir sig með hliðsjón af eigin löggjöf hvaða ákvæði reglugerðarinnar þyrfti að þeirra mati að aðlaga fyrir upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Þegar þeirri greiningarvinnu var lokið í hverju landi fyrir sig, sem var í mars 2017, fyrir ári, hófst umfangsmikil skoðun á vettvangi EFTA á því með hvaða hætti mætti aðlaga reglugerðina fyrir upptöku hennar í EES-samninginn. Voru þar fjórir valkostir teknir til skoðunar og vörðuðu einkum mismunandi aðkomu EFTA-ríkjanna að Evrópska persónuverndarráðinu og gildi ákvarðana ráðsins gagnvart persónuverndarstofnunum í EFTA-ríkjunum.

Þar réðu Íslendingar ekki einir för, heldur var það samningsatriði með samstarfsríkjum okkar í EFTA, þ.e. Noregi og Liechtenstein. Þegar EFTA-ríkin höfðu náð samhljómi þurftu þau síðan að ná samkomulagi við Evrópusambandið um efni aðlögunarinnar. Sú skoðun var ekki léttvæg og ákvörðunin að henni lokinni var ekki auðveld, en hún var sú að EFTA-ríkin samþykktu að víkja frá hefðbundnu tveggja stoða fyrirkomulagi við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Ég mun síðar í þessari framsögu víkja nánar að Evrópska persónuverndarráðinu og valdheimildum þess. Það var skoðun stjórnvalda að þessi kostur þjónaði best heildarhagsmunum Íslands þegar tekið væri tillit til allra hliða málsins.

Hluti af hinni ítarlegu greiningu af Íslands hálfu á mögulegum kostum í stöðunni var álit Stefáns Más Stefánssonar, prófessors emeritus við lagadeild Háskóla Íslands, sem er hluti af þingmáli þessu. Ég vísa um það til fylgiskjals IV með þingsályktunartillögunni.

Í ljósi þessarar niðurstöðu beitti Ísland sér fyrir því í samningaviðræðunum við hin EFTA-ríkin og ESB að afstaða EFTA-ríkjanna á vettvangi Evrópska persónuverndarráðsins skyldi skráð sérstaklega þótt þau hefðu þar ekki atkvæðisrétt. Þá beittu íslensk stjórnvöld sér einnig fyrir því að samningsaðilar, þ.e. Ísland, Noregur, Liechtenstein og Evrópusambandið, gerðu sameiginlega yfirlýsingu sem fylgir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar en þar er þess sérstaklega getið að þessi lausn hefði ekki fordæmisgildi fyrir aðlögun gerða sem felldar verða inn í EES-samninginn í framtíðinni. Samkomulag um yfirlýsinguna og efni hennar náðist í upphafi þessa árs og fylgir hún með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem er fylgiskjal I með þingsályktunartillögu þeirri sem ég mæli nú fyrir.

Ég fagna því sérstaklega að þessi yfirlýsing hafi verið gefin út og skjalfest með þeim hætti sem fyrir liggur.

Í kjölfar þess að samkomulag náðist milli EFTA-ríkjanna og ESB um efni aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sendu EFTA-ríkin hinn 16. mars sl. með formlegum hætti til Evrópusambandsins drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. ESB þarf núna að ljúka málsmeðferð til að fá umboð til að samþykkja ákvörðun í þessu máli áður en málið kemur til meðferðar í sameiginlegu EES-nefndinni. Áætlanir gera ráð fyrir því að ESB verði komið með umboð í byrjun júní næstkomandi, sem væru tæpir þrír mánuðir frá því að drög að ákvörðun voru send þeim til formlegrar meðferðar. Samhliða eru ferlin fyrir þjóðþingum Noregs og Liechtensteins langt komin með að fá fyrirframsamþykki fyrir upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni sem ég mæli nú fyrir er almenna persónuverndarreglugerðin þegar komin til framkvæmda innan Evrópusambandsins frá og með 25. maí sl. Reglugerðin mun hins vegar ekki taka til EFTA-ríkjanna innan EES, þar með talið Íslands, fyrr en hún hefur verið tekin formlega upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og sú ákvörðun tekið gildi. Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki enn samþykkt umrædda ákvörðun enda málið ekki komið til umfjöllunar í nefndinni. Að því er stefnt í júlí næstkomandi, eins og vikið verður nánar að síðar. Fyrirliggjandi eru hins vegar drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar sem er fylgiskjal I við tillöguna.

Með því að óska eftir fyrirframsamþykki Alþingis um að taka reglugerðina upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar þurfa íslensk stjórnvöld ekki að taka ákvörðunina með stjórnskipulegum fyrirvara, sem myndi seinka því að ákvörðunin tæki gildi gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES.

Ég sé að tími minn er runninn út, ef ég skil það rétt, þannig að að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og að því loknu til seinni umr.