148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:41]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það hefur verið talað um að innleiðing GDPR þýði nýtt landslag í persónuvernd. Eins og ég hef áður sagt er með GDPR verið að valdefla almenning og veita honum stóraukin réttindi. Það er mikilvægur og löngu tímabær liður í því að vernda einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.

Það er gleðiefni og sér í lagi ánægjulegt á tímum þegar réttindi stórfyrirtækja eru allt of oft tekin fram yfir réttindi almennings. Vonandi er það því til merkis um bót í þeim málum öllum. Vonandi eru á heimsmælikvarða að eiga sér stað ákveðin viðmiðaskipti í þessum málum.

Í raun hefur sú sem hér stendur áður lýst yfir ánægju sinni með innleiðingu reglugerðarinnar. Ég hef skynjað almenna ánægju innan þingsins með væntanlega innleiðingu. Og jafnvel þó að mér hafi ekki gefist tími til þess, þennan síðasta rúma sólarhring, að klára að lesa alla reglugerðina mun ég njóta þess að gera það um helgina. Eins og ég skil málin virðist nokkuð brýnt að taka hana upp hér á landi til að við göngum í takt við þær Evrópuþjóðir sem við höfum skuldbundið okkur til að ganga með, til að koma í veg fyrir spennu á milli Íslands og hinna þjóðanna. Ég hef fullan skilning á því að þar séu sannarlega hagsmunir þjóðarinnar undir að töluverðu leyti. Hins vegar hef ég á sama tíma áhyggjur af því og tel að það megi ekki vera á kostnað einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga hér á landi.

Eins og ég sagði í upphafi hefur verið talað um nýtt landslag í tengslum við GDPR. Þar með er það nýtt landslag í lagaumhverfi. Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún hafi engar áhyggjur af því að innleiðingartíminn hafi verið of stuttur til að skynsamlegt sé að henda því hér inn í íslenskt lagaumhverfi og að það hafi þá til dæmis ekki neikvæð áhrif á sveitarfélög, kannski lítil sveitarfélög sem standa ekki vel fjárhagslega, sem gætu lent í málum þar sem þau væru bótaskyld.

Það er eiginlega mín helsta spurning til hæstv. dómsmálaráðherra um GDPR að þessu sinni.