148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Eftir að ríkisstjórnin hefur setið í liðlega hálft ár sést að metnaður hennar til að bæta kjör þeirra þjóðfélagshópa sem höllum fæti standa sýnist naumast fyrir hendi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Öryrkjar sitja fastir í manngerðri fátæktargildru og mega þola fjárhagslegar skerðingar reyni þeir í krafti sjálfsbjargarviðleitni að bæta hag sinn. Tillaga Flokks fólksins um að hætta að skattleggja útlagðan kostnað vegna ýmislegrar aðstoðar og hjálpartækja, eins og heyrnartækja, fæst ekki afgreidd úr þingnefnd heldur situr þar föst. Það er gert þrátt fyrir að vitað sé um víðtækan stuðning við þetta sjálfsagða réttlætismál meðal þingmanna.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrir kosningar var frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra og bótaþega ekki hækkað nema í 100.000 kr. Tillaga Flokks fólksins um að fella brott þetta frítekjumark til að gera öldruðum og bótaþegum, sem til þess hafa vilja og getu, kleift að bæta hag sinn með aukinni vinnu hefur verið tekin úr þinglegum farvegi og vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er gert þrátt fyrir að tillögunni fylgi ítarlegur rökstuðningur fyrir því að ríkissjóður hafi ekki kostnað af aðgerðinni.

Flokkur fólksins hefur mælt fyrir baráttumáli sínu um að einstaklingar með tekjur undir 300.000 kr. séu undanþegnir tekjuskatti. Hér er farið með hófsemi því að slíkar tekjur duga vart fyrir framfærslu samkvæmt viðurkenndum viðmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf birt. Ætlar einhver að halda því fram að ríkissjóður komist ekki af nema skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum?

Ríkisstjórnin hefur reynst ófáanleg til að taka á málefnum tekjulægsta fólksins og millitekjufólks, ófáanleg til að leysa vanda öryrkja og bótaþega og leggur stein í götu okkar sem reynum hér á Alþingi að höggva utan af þessu fólki klakabrynju fátæktarinnar. Hún hefur reynst ófáanleg til að nýta persónuafsláttinn í þágu þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis ekki hreyft legg eða lið til að létta oki verðtryggingarinnar af heimilum og atvinnufyrirtækjum. Fjármálaráðherra hefur upplýst í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á liðnum fimm árum hafi verðbætur vegna íbúðalána numið 15 milljörðum vegna almennra verðhækkana en 118 milljörðum vegna hækkunar þessa húsnæðisliðar vísitölunnar.

Hækkun húsnæðisliðar á sér sumpart rót í stefnu Reykjavíkurborgar sem einkennist af lóðaskorti og tilheyrandi hækkun á fasteigna- og leiguverði. Nú þegar stefnir í að meiri hluti borgarstjórnar fái fjögur ár til viðbótar til að halda uppi stefnu lóðaskorts og sérvisku blasir við að húsnæðisliðurinn mun halda áfram að hækka af þessum ástæðum.

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin sjái til þess að húsnæðisliðurinn verði án tafar felldur brott úr vísitölunni. Það væri neyðarráðstöfun til að verja heimilin gegn húsnæðismissi með tilheyrandi róti og öryggisleysi fyrir börnin sem allt of mörg hafa mátt þola að vera leidd af foreldrunum út af heimilum sínum.

Skyldi þarna vera ein af rótum kvíða og annarra andlegra vandamála sem nú herja á ungviðið í landinu eins og faraldur? Ríkisstjórnin áformar að loka geðheilsuúrræði sem í samstarfi við Hugarafl hefur náð markverðum árangri, ekki síst í þágu ungs fólks.

Sama ríkisstjórn neitar að semja við bæklunarlækna um aðgerðir en kýs fremur að senda fólk til útlanda með ærnum kostnaði. Embættismenn skulu beygja sig eða hafa verra af.

Ríkisstjórnin aftekur að skjóta skildi fyrir fólk sem stendur frammi fyrir stórhækkun fasteignagjalda vegna hækkunar fasteignamats.

En þessari ríkisstjórn liggur á í ýmsu tilliti. Henni liggur á að lækka bankaskattinn, ekki um 20–30%, ekki um 40–50%, heldur um meira en 60%. Þar eru milljarðar sem hún ætlar að gefa úr ríkissjóði svo nýtist jakkafötum í bankabónusa. Henni liggur á að færa milljarða til fyrirtækja sem hafa hagnast vel og hafa greitt eigendum arð langt umfram veiðigjöld. Henni liggur á. Já, henni liggur líka á að lækka tekjuskatt þannig að þeir fái mest sem hæstar hafa tekjurnar. Henni liggur á þegar þeir eiga í hlut sem betur mega sín. Hún skirrist ekki við að frysta mál þeirra sem leitast við að rétta tekjulægstu hópunum hjálparhönd. Við borð liggur að ríkisstjórnin reki hernað á hendur hinum fátæku í þágu hinna efnameiri.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og leggja til að gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis verði átak um vernd og eflingu íslenskrar tungu með því að efla kennslu, rannsóknir, þýðingar og máltækni. — Góðar stundir.