148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Góðir áhorfendur. Við sem störfum fyrir Miðflokkinn erum í senn auðmjúk og þakklát fyrir þær viðtökur sem flokkurinn hefur fengið hjá kjósendum í tvennum kosningum á átta mánaða starfstíma hans. Jafnframt erum við himinlifandi yfir því þróttmikla starfi sem fjöldi manns kemur að á hverjum degi til að styrkja starf flokksins og árangur hans. Hafið öll heila þökk fyrir ykkar mikla starf og stuðning.

Það er augljóst að Miðflokkurinn er hluti af breytingum í stjórnmálum sem eiga sér nú stað víða um heim. Hefðbundið flokksræði er á undanhaldi en hreyfingar sem boða djarfa stefnu og árangursríkar lausnir hafa komið fram. Miðflokkurinn er gott dæmi um þessa þróun. Það er þörf á nýju afli sem hefur kjark og þor við þær aðstæður sem uppi eru í stjórnmálum á Íslandi.

Sitjandi ríkisstjórn er stofnuð um lægstu mögulegu samnefnara og kemur sér því einungis saman um einföldustu mál. Þetta birtist m.a. í málafæð stjórnarinnar á yfirstandandi þingi og í því að brýn og yfirgripsmikil mál koma fram allt of seint og illa unnin að auki. Dæmi um þetta er frumvarp um persónuvernd, fjármálaáætlunin og frumvarp um veiðigjald.

Dáðleysi ríkisstjórnarinnar í Arionbankamálinu á eftir að verða íslenskri þjóð afar dýrt. Það kristallast þessa dagana í útboðsgengi hlutabréfa bankans og afsali forkaupsréttar ríkisins sem ríkisstjórnin hafði lýst yfir áður að væri ekki fyrir hendi. Einnig er á teikniborðinu að selja bitastæðustu eignir bankans í þágu vogunarsjóðs en ekki ríkissjóðs.

Miðflokkurinn hefur einnig lagt fram tillögu um að fram fari óháð og faglegt staðarval fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Tillagan hefur legið í nefnd vikum saman en er nú loks laus úr prísundinni og verður vonandi á dagskrá þingsins innan skamms. Vilji ríkisstjórnarinnar til að gera þessi stóru mistök við ákvörðun um staðarval nýs þjóðarsjúkrahúss er einbeittur og mun verða dýrkeyptur verði ekki komið í veg fyrir þetta ráðslag með öllum ráðum. Fylgi við ríkisstjórnina er enda í frjálsu falli og flokkar þeir sem að henni standa fengu verðskuldaða ráðningu í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.

Kæru landsmenn. Þingflokkur Miðflokksins hefur á þessu stutta þingi snert á helstu áherslum sínum sem fram komu í þingkosningum í haust með einum eða öðrum hætti. Flokkurinn lagði við fjárlagaafgreiðslu fram tillögu um að atvinnutekjur aldraðra rýrðu ekki lífeyristekjur. Sú tillaga, sem hefði kostað ríkissjóð nánast ekki neitt en hefði bætt kjör þess hóps aldraðra sem hafa hug og getu til þess að vinna sér inn nokkra aukagetu, var felld að viðhöfðu nafnakalli af stjórnarmeirihlutanum en Samfylkingin sat hjá. Sannarlega snautleg kveðja fjögurra flokka til þess fólks sem mest hefur lagt til uppbyggingar íslensks þjóðfélags. Miðflokkurinn mun berjast áfram í þessu máli þar til það næst fram.

Miðflokkurinn hefur einnig lagt fram frumvarp um að húsnæðisliður falli út úr vísitöluútreikningi neytendalána. Það frumvarp er nú í gíslingu efnahags- og viðskiptanefndar og er engu líkara en að menn þori ekki að taka frumvarpið til 2. umr. Það kemur að vísu ekki á óvart því að við 1. umr. um málið stundu Framsóknar- og Sjálfstæðisþingmenn upp nokkrum andsvörum en komu að öðru leyti ekki að umræðu um málið. Hvorki þingmenn Samfylkingarinnar né Pírata höfðu áhuga eða þor til að taka þátt í umræðunni. Þingmenn Flokks fólksins tóku undir málflutning okkar Miðflokksmanna við umræðuna. Þetta er mál sem snertir 100.000 heimili í landinu. Hefði það komið fram fyrir ári síðan og verið samþykkt hefði það sparað íslenskum lántakendum rúma 50 milljarða, bara síðan í mars í fyrra.

Það er óþolandi ástand að fjármögnun húsnæðis skuli vera með allt öðrum hætti á Íslandi en í nágrannalöndum. Þar er óviðunandi vaxtastefna auk verðtryggingarinnar einnig stór áhrifaþáttur. Verði ekkert að gert getur ungt fólk ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið og hætta er á að ungt, vel menntað fólk sjá ekki möguleika á að setjast að á Íslandi. Sú þróun er þegar hafin og við henni verður að bregðast. Stjórnmálamenn verða að hafa kjark til þess að taka á þessu mikilvæga málefni. Annars hafa þeir ekkert erindi í stjórnmálum.

Enginn flokkur hefur lagt jafn mikla áherslu á breytingu hvað varðar verðtryggingu og Miðflokkurinn. Enginn flokkur annar hefur heldur haldið uppi jafn sterkri gagnrýni á okurvaxtastefnu Seðlabanka Íslands og viðskiptabankanna. Lækkun vaxta og afnám verðtryggingar er stærsta réttlætismálið sem nú er við að eiga á Íslandi. Þetta mun koma fram í kröfugerð verkalýðsfélaganna í haust í komandi samningagerð. Þá verður ríkisstjórnin að svara með afgerandi hætti. Miðflokkurinn mun verða í eldlínunni í þeirri réttlætisbaráttu jafn lengi og þarf.

Kæru landsmenn. Við fögnum í ár 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Engan gat órað fyrir því að á þessum 100 árum myndi þjóðin færast frá örbirgð til auðlegðar. Það gat enginn séð það fyrir hversu miklum árangri við myndum ná á þessum 100 árum. Þjóðin heldur nú upp á þetta sjálf á hverjum degi úti um allt land eins og kemur fram t.d. í nýútkomnu blaði sem var dreift um allt land nú um helgina síðustu.

Áhorfandi góður. Tímans vegna hef ég aðeins getað drepið á örfá atriði þar sem Miðflokkurinn hefur skýra sýn og klára valkosti sem núverandi ríkisstjórn skortir svo sárlega. Ég hvet þig því til að fylgjast vel með störfum okkar Miðflokksmanna og veita okkur stuðning og aðhald svo við getum mótað framtíðina saman. Ég óska þess að þú og þínir nánustu eigið góða tíma saman í sumar og njótið Íslands í sumarsins algræna skrúði. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.