148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

beiðni um lyf.

[10:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það tilvik sem hv. þingmaður nefnir hér til sögunnar er auðvitað þess eðlis að það snertir alla. Það er hins vegar þannig að þegar hér er komið sögu er það lyfjanefnd Landspítalans sem ákveður lyfjameðferð. Það er hlutverk og verkefni sérfræðilæknis þess sem með málið fer, í samstarfi við lyfjanefnd Landspítalans, að ákveða þá meðferð. Það getur ekki verið undir neinum kringumstæðum ákvörðun ráðherra á hverjum tíma að taka afstöðu til lyfjameðferðar. Það held ég að öllum sé ljóst. Ákvörðunin er flókin en hún er á hendi sérfræðinga og þeirra sem best þekkja til og skýrastar forsendur hafa til að taka ákvörðun í þessu máli. Það er svo í þessu máli eins og í öðrum sambærilegum að það er á hendi sérfræðinga í læknisfræði og sérfræðinga í lyfjamálum að komast að niðurstöðu í málinu.