148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni kærlega fyrir. Mig langar til að draga saman aðeins tvö mál sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd, annars vegar þetta mál, sem er mjög gott og ég styð heils hugar, hins vegar undanþágu frá höfundalögum þar sem gert er ráð fyrir að tölvur geti fengið að lesa bækur án endurgreiðslu, án þess að vera undir sömu takmörkunum og lífverur þegar kemur að því að lesa bækur og læra af þeim, mikilvæga orðið þarna er að læra af þeim. Þetta var það sem framsögumaður minntist á í framsöguræðu sinni, þ.e. um þessa vélrænu möguleika sem stafræn íslenska gerir, t.d. fyrir aðgengi fatlaðs fólks að menningarminjum okkar, bókum og bókaarfi og öllu því sem þar kemur að.

Með því að samþykkja frumvarpið um undanþágu frá höfundalögum væri hægt að ná markmiðum þingsályktunartillögunnar miklu betur, á miklu hagkvæmari, fljótvirkari og ódýrari hátt þar sem fleiri vinna að tækniþróun í nákvæmlega þessum málum.

Mig langar að velta því upp fyrir hv. flutningsmanni hvort það hafi eitthvað borið upp að bera þessi mál saman og leggja þau jafnvel upp til hliðar hvort við annað til þess að gera enn betur í rauninni en það sem hér er komið?