148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Á lokadögum þingsins erum við enn að tala um auðlindir hafsins, auðlindir Íslands, af miklum tilfinningahita; grundvallarmál sem er gríðarlegt hagsmunaatriði fyrir þjóðina til lengri og skemmri tíma. Okkur greinir á, þó það nú væri. Það er mikið í húfi, gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir. Eins og oftast eru það auðlindirnar í hafinu, hvernig við ráðstöfum þeim, hverjir megi og skuli nýta hana, þessa auðlind, og hvaða skilyrði eigandinn setur mildilega, því að það er þjóðin sem á þessa auðlind.

Það er ekki lengra síðan en svo að á fyrstu þingdögum mínum, sem ekki eru svo margir, hlýddi ég á ræðumann úr þessum stól segja fullum fetum að þjóðinni kæmi þetta ekkert við; útgerðin sækti aflann, ætti hann, þeir hefðu fullt leyfi, þetta væri þeirra eign. Svona raddir eru ekki lengur háværar en þær eru ekki að fullu þagnaðar.

Þess vegna er það svo brýnt að við tökum alvarlega umræðu um nýja stjórnarskrá sem að einhverju leyti er yfirlýstur vilji núverandi ríkisstjórnar sem þó telur að stjórnarskráin sé ekki svo slæm, hafi dugað okkur vel, en í einhverjum atriðum megi þó hnika henni til. Það er ekki nóg. Við eigum nýja stjórnarskrá tilbúna, stjórnarskrá fólksins. Og það eru sömuleiðis margir sem telja fiskveiðistjórnarkerfið, sem lagt hefur marga þéttbýlisstaði að velli, alveg ágætt, nánast fullkomið.

Bútasaumur stendur yfir á Alþingi, herra forseti. Við fjöllum um breytingar á lögum um veiðigjöld. Fagfólk í bútasaum, bæði karlar og konur, myndu ekki gefa okkur háa einkunn, þætti þetta ekki vera samhentur hópur sem að störfum er að þessu handverki.

Enginn ágreiningur er um að við þurfum að tryggja vel reknum, litlum og meðalstórum útgerðarfyrirtækjum grundvöll til rekstrar. Á þeim tóni hófst þessi vegferð, að draga úr frekari samþjöppun, að treysta byggðir. Stöndum við það. En í hjörðinni virðist vera úlfur í sauðargæru eins og í ævintýrinu.

Ágætu þingmenn. Tökum okkur nú á og látum ævintýrið enda vel.