148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á dagskrá Alþingis í dag er 2. umr. veip-umræðunnar svokölluðu sem hefur farið þó nokkuð fyrir í samfélaginu upp á síðkastið. Veip-umræðan hefur svo sannarlega tekið okkur og þá sem hér stendur í ferðalag sem ég bjóst ekki við og hefði ekki getað órað fyrir fyrir nokkru síðan. Við höfum fengið aðstoð frá færustu sérfræðingum heims og sérfræðingum sem hafa bestu þekkingu á tækninni á heimsmælikvarða. Ég verð því að segja að núverandi frumvarp í þeirri mynd með fjarstæðukenndum breytingum hryggir mig mjög. Það sem er að gerast er eitthvað sem ég get svo gott sem fullyrt að við munum naga okkur í handarbökin fyrir um ókomin ár.

Um daginn ræddi ég við íslenskan krabbameinslækni í fremstu röð. Hann starfar í Bandaríkjunum og er líka prófessor þar. Orðrétt sagði hann við mig: Sara, ég get svo gott sem lofað þér því að væri hægt að færa alla reykingamenn yfir á veip þá væri hægt að draga úr tíðni krabbameins svo stórkostlega að við myndum bara ekki vita hvaðan á okkur stæði veðrið.

Lofað, sagði hann. Þetta er maður sem fer varlega með orð sín. — Ég er að renna út á tíma og er með mikið undir. Ég taldi mig fram að þessu búa í vísindasamfélagi sem tæki ákvarðanir fyrir líf og heilsu þjóðar út frá nýjustu vísindalegum staðreyndum. Ég get ekki sagt að svo sé eftir að hafa fylgst með þessari umræðu. Hvað með börnin? Retóríkin hefur verið gríðarlega áberandi, fyrir utan hvað það er hreinlega órökrétt og ómálefnalegt að setja fram áhyggjur sínar á þann hátt. (Forseti hringir.) Allar áhyggjur sem fram hafa komið um þetta tiltekna mál eru auðleysanlegar eins og í mörgum öðrum málaflokkum. Hvað með börnin? Já, hvað með börnin sem síður missa foreldra sína vegna sjúkdóma tengdum tóbaksreykingum, hvað með þau? (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég þakka fyrir allan þann fjölda tölvupósta sem hefur komið frá fólki sem mótmælir því sem er að fara að gerast hérna í dag í veip-málum. Ég hvet fólk til þess að mæta upp á þingpallana í dag hafi það tíma til.