148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, fyrir að hefja umræðu um þessi mál og hæstv. ráðherra fyrir að vera til svara.

Ég vil tala um málið á svolítið öðrum grundvelli, með því að tala um réttindi fatlaðra barna. Fötluð börn eiga rétt til menntunar og fatlaðir eiga að hafa aðgang að menntakerfi sem er án aðgreiningar á öllum stigum og býður upp á nám í gegnum lífið. Fatlaðir eiga rétt á stuðningi til samræmis við einstaklingsbundnar þarfir sínar sem tryggja á að hámarki árangur í námi og félagsþroska.

Við kennslu á aðeins að vera fólk með sérþekkingu á fötluðum og óhefðbundnum tjáningarskiptaleiðum og öðrum sérkennsluaðferðum til að hægt sé að koma til móts við þarfir fatlaðra nemenda. Þessu er ekki framfylgt í dag. Við erum alltaf að heyra um að verið sé að brjóta á réttindum fatlaðs fólks til náms. Það virðist vera alveg sama hvað er gert, ekki er farið eftir þeim lögum og reglum sem eiga að vernda viðkomandi börn.

Þetta á einnig við um langveik börn, alvarleg þroskafrávik og hegðunarvandamál. Það sem er líka undarlegt í þessu samhengi er að ef við tökum dæmi um ofvirkni, athyglisbrest og mótþróaröskun, sem getur verið mjög slæmt fyrir viðkomandi foreldra, er það flokkað í 5. flokk sem þýðir núll. Það þýðir núll hjá Tryggingastofnun. Viðkomandi foreldrar fá ekki aðstoð. Þetta segir okkur að við erum enn mjög aftarlega í þessum málefnum.

Ég segi að ef við getum ekki komið þessu í lag er eitthvað að hjá okkur vegna þess að þetta eru einstaklingar og foreldrar sem þurfa hjálp og þetta eru einstaklingar sem geta ekki varið sig sjálfir. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þau fái menntun og aðra þjónustu við hæfi.