148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

persónuafsláttur og skattleysismörk.

[10:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin en vil benda honum á að árið 1993 fór ég inn í þetta kerfi. Árið 1993 hafði ég það bara ágætt. En eftir 24 ár í kerfinu hafði ég það skítt. Ég var farinn úr því að borga enga skatta upp það að borga 50.000 kr. á mánuði í skatt. Þar fór nú allt góðærið, allar þessar hækkanir.

Nú á að lækka skattprósentuna um 1%. Það eru 14 milljarðar. Af hverju setjum við það ekki í persónuafsláttinn þannig að allir fái jafnt? Ekki þannig að við fáum fimm til sex sinnum meira út úr því en þeir sem eru á lægstu launum og lægstu bótum. Er það ekki sanngjarnt?

Við verðum að átta okkur á því að við erum að tala um fólk sem ekki hefur til hnífs og skeiðar. Ég veit um fólk sem á ekki fyrir lyfjum. Fer ekki til tannlæknis, fer ekki til læknis. Við erum að tala um það fólk. Það fólk á kröfu, á þann rétt að séð verði til þess að það geti lifað með reisn.