148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

persónuafsláttur og skattleysismörk.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það eru hópar sem búa við of bág kjör í okkar samfélagi. Þess vegna hefur áherslan verið á að forgangsraða í þágu bættra kjara þeirra sem treysta á almannatryggingakerfið, svo dæmi sé tekið. Ég ætla þá að leyfa mér að benda á að ef okkur tekst ekki að sporna við fjölgun öryrkja, sem hefur verið upp á 3,5% á ári núna um allt of langt skeið, og hærra, dregur úr getu okkar til þess að sinna þeim sem eru í raunverulega mestu þörfinni. Það einfaldlega gengur ekki að það líði áratugir þar sem fjölgunin á örorkubætur er langt umfram lýðfræðilega þróun í landinu. Það er einn hluti vandans. Við þurfum að gá að því að samhliða auknum efnahagslegum styrk okkar til að styðja við þá sem eru inni í kerfinu séum við ekki að missa stjórn á heildarþróun kerfisins.

Það er spurt um persónuafsláttinn á móti lækkun tekjuskattsins hins vegar. Við höfum einfaldlega boðað að við höfum tekið frá það sem nemur (Forseti hringir.) um 1% til lækkunar á neðra þrepinu en á sama tíma að við ætlum í samtal um þróun persónuafsláttar og samspil við bótakerfin. Þannig verða þessi mál á dagskrá sem hv. þingmaður er að spyrja um.