148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er auðvitað annað sem vekur athygli í þessu varðandi þau varnaðarorð sem höfð hafa verið uppi í meðhöndlun fjárlaganefndar. Fyrir það fyrsta hefur á fjölda málefnasviða verið varað við því að þeim markmiðum sem sett séu fram fylgi ekki nægilegt fjármagn. Nefna má heilbrigðiskerfið, Landspítalann, fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Þetta hefur að sama skapi verið nefnt varðandi áform um nýtt lífeyriskerfi fyrir örorkulífeyrisþega og svo mætti áfram telja. Því til viðbótar hefur gjarnan verið kallað eftir því, í ljósi þess sem við ræddum hér fyrr, varðandi þann veikleika sem er í spám sem liggja áætluninni til grundvallar, að sviðsmyndir verði gerðar.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann fundið einhver merki um það í meðhöndlun meiri hlutans að við því hafi verið brugðist, annars vegar þeim veikleikamörkum sem hefur verið flaggað og hins vegar þeirri sviðsmyndagerð sem kallað hefur verið eftir?