148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni athyglisvert innlegg. Þetta höfum við rætt mikið í nefndinni og kom fram hjá fjölmörgum umsagnaraðilum að það vantar klárlega sviðsmyndirnar. Formaður nefndarinnar og nefndin er öll sammála um þetta og því hefði maður kosið að við þessu hefði verið brugðist í ferlinu. Það hefði vel verið hægt að kalla eftir sviðsmyndum í vinnu nefndarinnar. Í mikilvægum málaflokkum, eins og í ferðaþjónustu, hefði mátt spyrja hvaða áhrif það kæmi til með að hafa á efnahagslífið ef mikill viðsnúningur yrði til hins verra. Þetta er afar brýnt svo að við getum áttað okkur á því hvernig stjórnvöld myndu bregðast við slíkum aðstæðum. Það kemur mér svolítið á óvart að ekki skuli hafa verið horft í þetta, þ.e. ekki leitað eftir (Forseti hringir.) því að þetta yrði gert. Það bentu allir á, eða mjög margir, að þetta væri mjög brýnt.