148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Aðeins örstutt í upphafi varðandi landbúnaðinn þá tek ég að sjálfsögðu undir það að átakið, eða viðbrögð við vanda sauðfjárbænda, var mjög jákvætt skref. Ég átti fyrst og fremst við það að ég sé ekki að farið sé sérstaklega og heildstætt yfir landbúnaðinn í nefndarálitinu. Þá er náttúrlega stóra málið tollasamningurinn við Evrópusambandið. Það mál er allt í lausu lofti. Þess vegna hefði ég talið að eðlilegt hefði verið að setja til hliðar í þessari áætlun einhverja fjármuni til að hægt væri að bregðast við, fara út í aðgerðir til að mæta bændum í þeirri óvissu sem fram undan er, nokkurs konar mótvægisaðgerðir. Það er það sem ég lagði fyrst og fremst áherslu á í málflutningi mínum. Þegar ég nefndi að ríkisstjórnin væri áhugalaus um landbúnaðinn finnst mér hún sérstaklega áhugalaus um landbúnaðinn þegar kemur að þessum tollasamningi og áhrifum hans á íslenska og innlenda búvöruframleiðslu.

En varðandi ferðaþjónustuna tel ég það ekki stangast á þó að óvissa sé í greininni að sett verði hóflegt gjald á komu ferðamanna til landsins. Það er afar brýnt að við förum í verulega innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum. Orðstír landsins er í húfi, það er bara þannig. Ef fréttist um allt að ekki sé hægt að fara að helstu ferðamannaperlum landsins vegna ágangs o.s.frv. þá dregur einn daginn úr áhuga ferðamanna á að koma hingað. Ég held að það geti alveg farið saman að taka myndarlega á þessu. Ég held ekki að hóflegt gjald muni hafa það slæm áhrif að við þurfum að hafa áhyggjur af því.