148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður áhugavert að sjá hver afstaða Ríkisendurskoðunar verður gagnvart þessari ráðstöfun. Ef Ríkisendurskoðun kemst að hinni ólíklegu niðurstöðu að þetta sé sú meðferð sem sjóðnum er ætluð til framtíðar held ég að nauðsynlegt sé að við pökkum saman öllum áformum um þennan þjóðarsjóð hið snarasta sem verður þá, að manni sýnist helst, hanteraður þannig að duttlungar ríkisstjórnar hverju sinni ráði för en ekki aðgerðir sem þjóna upphaflegum tilgangi þessa ágæta sjóðs.

Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi þjóðarsjóðinn sem hann kom svo ágætlega inn á í ræðu sinni. Telur hv. þingmaður, að fenginni reynslu, að ætla megi að stjórnvöld hverju sinni gangi um hann með svipuðum hætti og varasjóðinn núna? Er ástæða til þess að halda að það horfi (Forseti hringir.) mismunandi við þeim sem stýra hverju sinni?