148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar er sérlega athyglisverð fyrir þá sök að hann fjallar með ítarlegri hætti en hefur heyrst hjá sumum um tiltekinn málaflokk, sem eru lögreglumálin. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að lögreglan heyrir til þess sem við myndum kalla innviði, en lögreglan hefur grundvallarhlutverki að gegna sem er að halda uppi lögum og reglu og gæta öryggis.

Það er einu sinni þannig að fyrir þá sem ekki þekkja mjög vel til lögreglumála er mjög áhugavert að fá innsýn í þau. Það vill til að hv. þingmaður býr að langri reynslu og sérþekkingu á því sviði, eftir því sem mér er best kunnugt, hafandi verið sýslumaður, lögreglustjóri og skólastjóri Lögregluskólans.

Þess vegna hef ég áhuga á því til að dýpka umræðuna eilítið að heyra frá hv. þingmanni álit hans á því hvaða afleiðingar það hefur, samfélagslegar afleiðingar og gagnvart þeim verkefnum sem lögreglunni er ætlað að rækja, þegar blasir við sá skortur á mannafla sem hann fór svo rækilega yfir í ræðu sinni, líka í sögulegu ljósi. Þarna er um langa einhvers konar vanrækslu að ræða sem hefur haft afleiðingar. Ég vil í fyrra andsvari inna hv. þingmann eftir afleiðingu þessa og því hvaða úrræði hann sjái mögulega í stöðunni.