148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit þetta er það sama, það fer eftir því hvernig maður stillir upphæðirnar, hvernig þeir lenda að lokum. Í fjármálastefnu og lögum um opinber fjármál er talað um festu, að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar. Í fjármálastefnu er talað um að það eigi að vera greinargerð með tilliti til grunngilda um þróun skatta. Þá er talað um, í fjármálasamþykkt í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, lækkun á tekjuskatti í neðra þrepi. Ég hef áhuga á að vita hvort frekari breytinga sé að vænta. Eins og hv. þingmaður orðaði það tekur þetta kannski einhver ár. En mig langar einnig að spyrja um markmið um þróun skatta í fjármálastefnunni, lækkun á tekjuskatti í neðra þrepi, hvernig það komi inn á vettvang efnahags- og viðskiptanefndar með þessa eins prósentustigs lækkun í þrepum yfir kjörtímabilið, hvort það var einhver útfærsla þar. (Forseti hringir.) Við höfum bæði heyrt að þetta „geti jafngilt“ eins prósentustigs lækkun eða sé eins prósentustigs flöt lækkun á neðra tekjuskattsþrepi.