148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svar hv. þingmanns. Ég fæ kannski aðeins meiri ræðutíma um þetta mál ef ég bið fallega. — Já, þetta var fínt. Mínútan verður ekki tekin af mér.

Ég get lýst því yfir hér að ég er dyggur lesandi vikulegra greina hv. þingmanns, þær eru flestar mjög prýðilegar. Það er annað mál sem mér hefur ekki þótt eins gott hér innan dyra á síðustu vikum. Mig langaði að heyra afstöðu hv. þingmanns gagnvart þeirri aðgerð sem gengið var til núna nýlega þegar gengið á var á svokallaðan varasjóð sem nemur rúmlega helmingi þeirra fjármuna sem í honum voru. Eins og við þekkjum verður því varið til samgöngumála, svokallaðra bráðaaðgerða á vegakerfinu. Ég tel að flestir hafi getað séð fyrir það ástand sem blasti við á vegakerfinu.

Það sem mig langar að heyra frá hv. þingmanni og um afstöðu hans er hvort honum þyki þetta forsvaranleg nálgun á þennan svokallaða varasjóð. Er þetta sjóður ríkisstjórnar hverju sinni sem ætlaður er til ófyrirséðra hluta sem síðan á að fylla á einu sinni á ári? Að þetta sé orðið eins konar skúffufé á sterum til að bjarga ráðherrum fyrir horn sem ekki klára sín mál í fjárlagagerð, af því að erum að fjalla um stera í öðru þingmáli þessa dagana.

Það slær mig dálítið með þeim hætti, að þarna ætli menn að bjarga ýmsu fyrir horn hverju sinni ef þeir koma ekki sínum málum í gegnum fjárlög í desember eða hvenær sem þau eru afgreidd og ætli þá að ganga í þennan svokallaða varasjóð sem hefur þrátt fyrir allt töluvert skýrar reglur hvað umgjörðina varðar.

(Forseti (GBr): Forseti var heldur ríflegur með tímann fyrir Bergþór Ólason. Það er ekki fordæmisgefandi.)