148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Smári McCarthy leggjum fram breytingartillögu á frumvarpi til laga um veiðigjald þar sem í stað orðanna „Langreyður 51.440 kr.“ komi: Langreyður, 2.572.000 kr.

Langreyður er dýr í útrýmingarhættu. Það er flokkað í næstefsta hættuflokki, eins og það er kallað, „endangered“, en ekki „extremely in danger“ — ég biðst afsökunar á enskunotkun — í útrýmingu en ekki í gríðarlegri útrýmingarhættu. Eftir það eru flokkar eins og útrýmt, ekki í haldi eða í dýragörðum, eitthvað því um líkt, sem mun augljóslega ekki gerast með langreyði.

Ástæðan fyrir því að langreyðar eru á þessum lista er að fjöldi þeirra hefur hrapað um 70% eða meira á síðastliðnum þremur kynslóðum dýranna, 70%. Ástæðan er veiðar, það er ekkert flóknara en það.

Eftir ítarlega útreikninga á þessu veiðigjaldi komumst við að þeirri niðurstöðu að til þess að koma í veg fyrir að veiðar á langreyði borgi sig þurfi að hækka veiðigjaldið. Það er einfaldlega óboðlegt að við séum að gefa út veiðileyfi á dýr í útrýmingarhættu. Ég bið þingheim vinsamlegast um að taka tillit til þessarar breytingartillögu. Við þyrftum að hækka veiðigjaldið meira, það ætti að sjálfsögðu að vera 10 billjónir eða eitthvað því um líkt. Það á ekkert að veiða þessi dýr.